2012 Þingvallasund

Þann 25. ágúst, 2012 syntu þeir Kristinn Magnússon, Árni Þór Árnason, Hálfdán Örnólfsson og Benedikt Hjartarson þvert yfir Þingvallavatn. Lagt var af stað frá Mjóanesi og tóku sundmenn land við Riðvík 5 km síðar. Sundið gekk að óskum, þótt nokkuð þung alda hafi komið á hlið sundmanna megnið af leiðinni.
Vatnið mældist um 11,5 gráður. Hálfdán Örnólfsson kom fyrstur að Riðrvík á tímanum 1 tíma og 40 mínútur, en svo komu félagar hans einn af öðrum á næstu 10 mínútum.
Þingvallasund er draumur margra sundmanna, en einungis 5 hafa synt það frá upphafi. Fylkir Þ Sævarsson synti það fyrstur sumarið 2001, en félagi hans Kristinn Magnússon synti það árið eftir og svo aftur núna.
Þingvallasund var nr. 17. í röðinni yfir alþjóðlega upptalningu yfir áhugaverð sund hjá World ́s Top 100 Open Water Swims.
Sundmenn nutu dyggrar aðstoðar Björgunarsveitarinnar á Selfossi og góðra vina sem studdu sundmenn með ráð og dáð og viku ekki frá þeim allt sundið. Að sundi loknu buðu svo aðilar úr fylgdarliðinu, hjónin Sveinn og Svava Kristín Valfells þátttakendum og aðstandendum upp á gúllassúpu í sumarbústað þeirra við vatnið.

Frétt inná RÚV.is: Fjórir menn syntu yfir Þingvallavatn.


Upplifun Árni Þór Árnason (1969).

Árni Þór á sundi í Þingvallavatni.

Upplifun: „Sund í einum flottasta þjóðgarði í heimi snertir við manni. Hrein náttúra og tært vatn – ólýsanleg upplifun að synda þetta sund með góðum félögum :-)”


Upplifun Benedikt Hjartarson (1957).

Benedikt á sundi í Þingvallavatni.

Upplifun: „Þingvallasund er mjög frábrugðið sundi í sjó. Þegar synt er í öldugangi í sjó lyftist sundmaður með öldunni. Í vatni lemur aldan sundmann án þess að lyfta honum. Líkurnar eru því meiri á að svelgjast á í vatni. Mín upplifun var sú að læra að synda í ferskvatni. Ég var með sundhettu sem flot og voru það mistök. Við það reyrist höfuðið upp og er ekki í þeirri stöðu sem æskilegast er fyrir skriðsund. Af þeim sökum synti ég bringusund hálfa leiðina sem er ekki mitt sund og mun tímafrekara. Þetta var samt mjög gaman og alltaf spennandi að prufa nýja staði.”


Upplifun Hálfdán Freyr Örnólfsson (1973).

Hálfdán Freyr á sundi í Þingvallavatni.

Upplifun: „Algjörlega magnað! Sá botninn nokkra metra svo bara hyldýpið. Rosaleg tilfinning, leið virkilega vel allt sundið, nærðist 2svar á leiðinni. Hélt góðum hraða alla leið þrátt fyrir hliðaröldu og þegar ég sá botninn hinum megin þá komu sigurtár og algjörlega ólýsanleg tilfinning. Ég var hrærður og fannst eins og ég væri að gera það ómögulega, enda ekki með mikla fitu :))”


Upplifun Kristinn Magnússon (1967).

Kristinn á sundi í Þingvallavatni.

Upplifun: „Hvernig var að endurnýja 10 ára upplifun, en synda nú í hina áttina. Upplifa sund án næringarinntöku, sinadrætti í fótum og vinna sig í gegnum þá. Upplifa félagsskap á sundi, upplifun félaganna og gleði sem ég hafði selt þessa hugmynd að synda með mér. Í þetta skipti upplifði ég náttúruna meiri, sterkari, togkraft vatnsins. Síðast en ekki síst upplifði ég öryggið af fylgdinni yfr vatnið og ánægjuna þegar ég að síðustu sá alla félagana á bakkanum ánægða með afrek sín. Á heildina litið var auðveldara að synda þetta núna en fyrir 10 árum síðan.”