Saga sundsins

Fylkir Þorgeir Sævarsson synti yfir Þingvallavatn sumarið 2001.

Grunnhugmyndin að sundi yfir Þingvallavatn kviknaði hjá Fylki Sævarsyni sumarið 2000.
Hann framkvæmdi hugmyndina árið eftir, þegar hann synti frá Mjóanesodda í Bláskógabyggð og yfir á sandströndina, milli Riðvíkur og Markartanga í Grímsnes og Grafningshreppi.


Kristinn Magnússon synti yfir Þingvallavatn sumarið 2002.

Kristinn á sundi í Þingvallavatni.

Sumarið 2002 synti Kristinn Magnússon, æskufélagi Fylkis úr Sundfélagi Hafnafjarðar einnig þvert yfir vatnið, en Kristinn synti frá sandströndinni og endaði í Mjóanesodda, öfuga leið miðað við sund Fylkis.
Það var svo sumarið 2003 sem Kristinn fékk þá hugmynd að gera þetta sund að árvissum viðburði. Þá hafði hann synt milli lands og Vestmannaeyja. Hugmynd hans að Þingvallasundi gengur út á að leyfa fleirum að taka þátt í sundinu. Þá verður synt frá Mjóanesodda, eins og í fyrsta Þingvallasundinu.


Saga sundsins

Fylkir Þorgeir Sævarsson

„Grunnhugmyndin að því að synda yfir vatnið kviknaði um sumarið 2000, er ég vann við að vakta fjarskiptabúnað sem staðsettur er uppá Miðfelli. Þaðan hafði ég gott útsýni yfir vatnið, þessar vaktir voru oft langar og lítt háðar degi og nótt. Því var góður tími til að velta hugmyndinni fyrir sér á öllum tímum sólarhringsins. Því meir sem ég hugsaði um sundið þeim mun ákveðnari varð ég.

Um haustið hélt ég til Danmerkur þar sem ég bý, notaði ég veturinn til að undirbúa hugann.
Í byrjun sumars 2001 kom ég svo aftur til Íslands og réði mig í vinnu við endurnýjun Sogsvirkjana. Þetta þýddi að ég bjó á svæðinu alla vikuna, því var auðvelt að komast í kalt vatnið eftir vinnu. Til að byrja með nýtti ég mér ána þar sem hún rennur á milli Ljósafossvirkjunarinnar og Írafossvirkjunarinnar. Áin er ekki mjög straumhörð og því passaði vel að synda aðeins útí strauminn, finna sér stein á botninum, sem viðmiðun og nýta sér síðan strauminn líkt og hlaupabretti. Eftir því sem mér tókst að auka við tímann í vatninu fór ég að taka æfngar í sjálfu Þingvallavatninu.

Það var kynngimagnað að synda meðfram ströndinni við útfallið í syðri enda vatnsins. Botninn var auðvitað allt öðruvísi en það sem maður á að venjast frá sundi í sjó. Skyggni allt annað og landslagið líka. Það sem helst kom á óvart var kaldur straumur sem kom uppúr gjám sem ganga niður í vatnið. Að líta niður í þessar gjár, svart hyldýpi, setti líka ugg að manni. Æfingarnar gengu engu að síður vel og ég komst upp á lagið með að hjóla mér til hita eftir að hafa verið langan tíma í vatninu í einu. Svo kuldahroll og skjálfta varð ég viðskila við, sem annars hafði verið hluti af ferlinu. Á þessum tíma var ég í kringum 105-110 kg. svo það sóttist vel að auka tímann í vatninu. Ég var búin að áætla sundtímann yfir vatnið sem ca. 2 klst. og einbeitti mér því mikið að því að geta verið í um 45-60 mín. í vatninu í einu. Þar sem ég hafði einungis áætlað að vera 6 vikur við vinnu á Íslandi þetta sumarið, setti það allan undirbúning í ákveðnar skorður. Ennfremur þurfti að athuga með landtöku Nesjavallamegin, varð fyrir valinu sandströnd milli Riðvíkur- og Markatanga sem gott er að ganga á land í.

Um helgar nýtti ég mér svo Vífilstaðavatn og Elliðavatn sem æfngaaðstöðu. Veiðimenn í Elliðavatni töldu margir að þetta væri nú ekki til bóta fyrir fiskeríið, veiðivörðurinn var sammála veiðimönnunum og því einbeitti ég mér að Vífilstaðavatninu. Fyrir austan notaði ég líka Úlfjótsvatnið til æfnga. Eftir að hafa tekið 2ja klukkustunda sund í sjálfu Þingvallavatninu, eitt kvöld eftir vinnu, viku fyrir sundið, taldi ég undirbúninginn vera í höfn. Þá voru liðnar 4 vikur frá því að undirbúningurinn hófst. Eftir að hafa rætt við bóndann á Mjóanesi og fengið leyfi hjá honum, svo hægt væri að hefja sundið frá Mjóanestanga, ræddi ég við björgunarsveitina á Selfossi sem hefur Þingvallavatnið innan sinnar lögsögu. Var ekkert annað eftir en að telja niður dagana þangað til að sundinu kæmi.”

Fylkir Þorgeir Sævarsson.